Landsbyggðin er látin gjalda fyrir þensluna á höfuðborgarsvæðinu, að sögn Björns Steinars Pálmasonar, bæjarstjóra Grundarfjarðarbæjar.

Björn skrifar grein í síðasta tölublað Viðskiptablaðsins þar sem hann fjalla um skuldavanda margra sveitarfélaga. Hann segir rétt að hann stafi af því að útgjöld og tekjur hafi ekki haldist í hendur. Ástæðan sé hins vegar ekki sú að sveitarstjórnarmenn haldi almennt illa utan um rekstur heldur sú að ríkið gefi sveitarfélögunum ekki tækifæri til endurskipulagningar.

Björn nefnir jafnframt að þenslan á árunum fyrir hrun hafi aldrei náð til Grundarfjarðar. Þvert á móti hafi þorskkvóti verið skertur um 30% árið 2007 í þeim tilgangi að minnka þenslu í þjóðfélaginu sem var þá. Þær aðgerðir hafi reyndar ekki haft áhrif á þensluna á höfuðborgarsvæðinu. Áhrifin hafi hins vegar verið veruleg á Grundarfirði þar sem sjávarútvegur er grunnstoð samfélagsins. Það hafi í raun verið dregið úr raunverulegri verðmætamyndun í samfélaginu til þess að slá á gerviþenslu á höfuðborgarsvæðinu.

Grein Björns má lesa hér