Það er, eins og alltaf er þegar kosið er á milli tveggja einstaklinga, margt sem getur ráðið úrslitum um það hver verður kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar seinna í dag. Þær Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður og fv. fjármálaráðherra, hafa báðar lýst yfir framboði.

Katrín þykir sigurstranglegri en það gæti bitnað á henni að koma úr sama kjördæmi og nýkjörinn formaður flokksins, Árni Páll Árnason. Þau skipa sem kunnugt er tvö efstu sætin á framboðslista Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi. Á sama tíma má segja að Oddný sé fulltrúi landsbyggðarinnar, ef þannig má að orði komast, sem nýkjörinn oddviti flokksins í suðurkjördæmi en hún bar sigur úr býtum í prófkjöri flokksins í kjördæminu í nóvember sl.

Það má þó heyra á fjölmörgum viðmælendum Viðskiptablaðsins hér á landsfundinum í morgun að landsdómsmálið svokallaða virðist sitja í mörgum. Sem kunnugt er var Oddný ein af fáum þingmönnum Samfylkingarinnar sem greiddi atkvæði með því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fv. utanríkisráðherra. Það gerðu einnig þau Jónína Rós Guðmundsdóttir, Mörður Árnason og Valgerður Bjarnadóttir.

Það vakti einnig mikla athygli þennan örlagaríka dag, þegar greidd voru atkvæði um það á Alþingi hvort draga skyldi fjóra fyrrum ráðherra fyrir landsdóm, þegar þau Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Skúli Helgason, allt þingmenn Samfylkingarinnar, greiddu atkvæði með því að ákæra Geir H. Haarde, fv. forsætisráðherra, en gegn því að ákæra skyldi Ingibjörgu Sólrúnu. Atkvæði þeirra réðu úrslitum um það að Geir var einn ráðherra dreginn fyrir landsdóm.

Þær Jónína Rós, Ólína og Sigríður Ingibjörg greiddu einnig atkvæði með því að ákæra Björgvin G. Sigurðsson, fv. viðskiptaráðherra, en aðrir þingmenn Samfylkingarinnar, þ.m.t. Oddný, greiddu atkvæði gegn því. Katrín Júlíusdóttir greiddi atkvæði gegn öllum ákærunum.

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Það mun skýrast upp úr klukkan 16 í dag hvort Oddný G. Harðardótir eða Katrín Júlíusdótir verður kjörin varaformaður Samfylkingiarinnar.