*

föstudagur, 29. maí 2020
Innlent 13. maí 2020 10:33

Landsframleiðsla dregst saman um 13%

Nýjustu spár SA og VÍ gefa til kynna 13% samdrátt í íslenska hagkerfinu á árinu. Hagvöxtur undir meðallagi næstu árin.

Ritstjórn
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, kallar eftir aðgerðum frá Seðlabanka Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Grunnsviðsmynd Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands gera ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 380 milljarða króna eða um 13% af vergri landsframleiðslu á árinu 2020. Það gæti tekið allt að sjö ár að vinna upp framleiðslutapið ef spár um hagvöxt undir meðallagi næstu árin ganga eftir að því er Fréttablaðið greinir frá.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, kallar eftir frekari aðgerðum frá Seðlabanka Ísland, en ríkissjóður verður rekinn með 330 milljarða króna halla á árinu samkvæmt greiningunni. Ásdís segir að svigrúm stjórnvalda sé takmarkað og nú sé komið að Seðlabankanum að grípa til aðgerða. 

„Þegar kemur að næstu aðgerðum hagstjórnar er boltinn hjá Seðlabankanum. Þrátt fyrir að bankinn hafi fyrir tveimur mánuðum lækkað stýrivexti í tvígang eru vextir hér langtum hærri en það sem við sjáum í öðrum iðnríkjum,“ segir Ásdís.

„Seðlabankinn hefur því ónotað svigrúm, en í f lestum iðnríkjum eru stýrivextir komnir niður í núll. Verðbólguhorfur og væntur framleiðsluslaki gefa ekki tilefni til annars en að stýrivextir á Íslandi lækki áfram.“

Seðlabankinn hefur þrívegis lækkað meginvexti sína á árinu sem standa nú í 1,75%. Seðlabankinn hefur einnig lækkað bindiskyldu niður í núll og afnumið sveiflujöfnunarauka. Kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum á eftirmarkaði hófust síðastliðinn mánudag.