*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 29. maí 2020 09:40

Landsframleiðsla dróst saman um 1,2%

Landsframleiðsla minnkaði um 1,2% á fyrsta fjórðungi ársins. Einkaneysla hækkaði um 0,9% þrátt fyrir Covid.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Áætlað er að landsframleiðslan á fyrsta ársfjórðungi ársins hafi dregist saman að raungildi um 1,2% frá sama ársfjórðungi fyrra árs, samkvæmt frétt Hagstofunnar.

Þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, jukust að raungildi um 2,9% á fjórðungi ársins borið saman við sama tímabil fyrra árs. 

Þrátt fyrir merkjanleg áhrif faraldursins á ýmsa liði einkaneysla, ekki síst einkaneysluútgjöld Íslendinga erlendis, þá jókst einkaneysla um 0,9% á fjórðungnum vegna vaxtar í öðrum liðum, meðal annars kaupum á bifreiðum. Vöxtur samneyslu jókst um 2,3% á fjórðungnum. 

Fjármunamyndun jókst um 4,1% frá sama tímabili fyrra árs sem einkum skýrist af grunnáhrifum útflutnings flugvéla á sama tímabili fyrra árs en án fjármunamyndunar í skipum og flugvélum mældist 15,8% samdráttur í fjármunamyndun samanborið við sama tímabil árið 2019. Fjármunamyndun 

Þar sem útflutningur dróst meira saman en innflutningur á 1. ársfjórðungi 2020 er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar neikvætt. Samdráttur mældist í flestum undirliðum utanríkisviðskipta á fyrsta ársfjórðungi. Mestur samdráttur mældist í þjónustuútflutningi sem að hluta má rekja til áhrifa Covid-19 á komu ferðamanna hingað til lands en áhrifa faraldursins gætir einnig í öðrum liðum, meðal annars í þjónustuinnflutningi. 

Vöruútflutningur var áætlaður 150,2 milljarðar á fjórðungnum en vöruinnflutningur 168,8 milljarðar. Vöruviðskiptajöfnuður var því áætlaður neikvæður um 18,6 milljarða króna. Þjónustujöfnuður var áætlaður jákvæður um 24 milljarða á tímabilinu, útflutt þjónusta áætluð 115,5 milljarðar en innflutt þjónusta 91,4 milljarðar.