Landsframleiðsla jókst að raungildi um 3,1% á árinu 2011 samkvæmt áætlun Hagstofu Íslands. Þessi vöxtur kemur í kjölfar mikils samdráttar tvö ár þar áður, 4% árið 2010 og 6,8% árið 2009.

Landsframleiðsla jókst um 1,9% að raungildi milli 3. og 4. ársfjórðungs síðasta árs. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld um 4,5%.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að þjóðarútgjöld á árinu 2011 jukust nokkru meira en nam vexti landsframleiðslu, eða 4,7%. Einkaneysla jókst um 4% og fjárfesting um 13,4% en samneysla dróst saman um 0,6%. Útflutningur jókst um 3,2% og innflutningur nokkru meira, eða um 6,4%. Þrátt fyrir þessa þróun varð verulegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á árinu 2011, eða 133 milljarðar króna.

Aukna fjárfestingu á síðasta ári má meðal annars rekja til mikils innflutnings á skipum og flugvélum en slík fjárfesting hefur lítil sem engin áhrif á landsframleiðslu. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst fjárfesting á síðasta ári um 7,4%.