Landsframleiðsla á mann, leiðrétt fyrir kaupmætti í hverju landi fyrir sig, var 12% yfir meðaltali Evrópusambandslandanna hér á landi á síðastliðnu ári samkvæmt tölum sem hagstofa Evrópusambandsins (ESB) hefur nýlega birt. Hækkar landið sig um tvö prósentustig á þennan mælikvarða frá árinu 2011, en þá var landsframleiðsla á mann 10% yfir meðaltali ESB. Þetta kemur fram í frétt frá Greiningu Íslandsbanka.

Það land sem kemur einna best út úr þessum samanburði er Noregur. Var landsframleiðsla á mann leiðrétt fyrir kaupmætti 95% yfir meðaltali ESB ríkjanna á síðastliðnu ári. Af öðrum Norðurlöndum má nefna að Finnar voru á síðasta ári með landsframleiðslu á mann sem var 15% yfir meðaltali ESB ríkjanna, Danir með 25% og Svíar með 28%. Ísland er því síst í þessum samanburði milli Norðurlandanna, með 12% yfir meðaltali ESB.

Landsframleiðsla á mann leiðrétt fyrir kaupmætti er mælikvarði sem oft er notaður til þess að meta velferð í löndum. Að mati Greinignar Íslandsbanka virðist velferð vera nokkuð viðunandi hér á landi í þessum samanburði á milli landa, og þá þrátt fyrir allt sem hér hefur gengið á í efnahagsmálum á undanförnum. Mælikvarðinn endurspeglar þó einnig að mikið hefur gengið á í efnahagsmálum í ýmsum nálægum hagkerfum á sama tíma.