Landsframleiðslan núna er áþekk því sem hún var um það leyti sem bankakerfið hrundi haustið 2008. Þetta kom fram í fyrirlestri sem Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, hélt á ráðstefnu ÍMARK í Hörpu í morgun.

Hann sagði að hægfara og rysjótt bataskeið hafi byrjað í ársbyrjun 2010 og batanum hafi vaxið verulega ásmegin í fyrra. Það ár hafi hann verið með mesta móti í samanburði við önnur lönd.

Þorvarður Tjörvi segir að efnahagsbatinn sé fyrst og fremst borinn upp af útflutningi og tengdum greinum, auk bata í smásölu. Greinar sem drógust mest saman í kjölfar kreppunnar leggja hins vegar enn lítið til batans. Það á einkum við um fjármálaþjónustu.