Verg landsframleiðsla jókst um 2,4% á öðrum ársfjórðungi 2014 miðað við sama tíma í fyrra en greiningardeild Arion banka hafði gert ráð fyrir 3,9% aukningu.

Greiningardeildin segir að þetta sé í fyrsta sinn sem Hagstofan birti þjóðhagsreikninga samkvæmt nýjum staðli ESA2010 og séu tölurnar því ekki að fullu samanburðarhæfar við þjóðhagsspá greiningardeildarinnar.

Tölurnar valda greiningardeildinni vonbrigðum. Bæði einkaneysla og innflutningur séu umfram væntingar en á sama tíma virðist vera að hægja á framleiðslu í hagkerfinu þar sem fjárfesting og útflutningur séu undir væntingum. Mikilvægt sé þó að hafa í huga að landsframleiðslutölurnar fyrir árið 2013 hafi verið uppfærðar og hafi það áhrif á landsframleiðslutölur á öðrum ársfjórðungi 2014. Það skýri að hluta til lágan vöxt í fjárfestingu milli ára og aukningu einkaneyslunnar umfram væntingar.

Að mati greiningardeildarinnar eru hagvaxtarhorfur fyrir árið í heildina ekki jafnlakar og virðist í fyrstu þegar horft er á nýbirtar landsframleiðslutölur á öðrum ársfjórðungi 2014.