Landsframleiðsla á evrusvæðinu dróst saman um 0,2% milli ársfjórðunga á öðrum ársfjórðungi þessa árs en rekja má helstu ástæður þess til minnkandi einkaneyslu og samdráttar í útflutningi.

Frá þessu er greint á fréttavef BBC sem byggir frétt sína á upplýsingum frá Eurostat.

Þá er greint frá því að hækkandi matvæla- og eldsneytisverð hafi orðið þess valdandi að dregið hafi nokkuð úr einkaneyslu sem er jú einn helsti drifkraftur landsframleiðslunnar.

Greiningaraðilar telja að samdráttur sé framundan á evrusvæðinu en frá fyrri ársfjórðungi hefur einkaneysla dregist saman um 0,2%, útflutningur um 0,4% og fjárfesting fyrirtækja um 1,2% milli fjórðunga.

Þýskaland er stærsta aðildarríki evrusvæðisins en þar dróst landsframleiðsla saman um 0,5% á fyrrgreindu tímabili. Á saman tíma dróst landsframleiðsla saman um 0,3% í Frakklandi og á Ítalíu.