Ekkert virðist geta komið í veg fyrir að landsframleiðslan í Grikklandi haldi áfram að falla næstu mánuði. Þetta kemur fram í tölfræði grísku hagstofunnar að því er breska ríkisútvarpið BBC greindi frá í gærkvöld. Landsframleiðsla í Grikklandi féll um 1,5% á öðrum ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra. Það sama átti við um fyrsta ársfjórðung ársins en þá féll landsframleiðslan um 0,8%.

Þrátt fyrir þetta telja stjórnvöld að greiðslufall ríkisins sé ekki raunhæfur möguleiki lengur og grískt efnahagslíf sé á réttri leið. Ekki eru þó allir sannfærðir um að Grikkland nái tökum á ríkisskuldum. Vogunarsjóðir eru enn að veðja á ríkið standi ekki við sitt, þrátt fyrir að Alþjóðgjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið hafi komið landinu til bjargar.

Nikos Magginas, aðalhagfræðingur seðlabankans í Grikklandi, segir í viðtali við BBC að fall landsframleiðslunnar sýni að enn sé óstöðugleiki í hagkerfinu og nokkur óvissa um hvernig tekst að rétta af efnahaginn. Atvinnuleysi er enn hátt í landinu, milli 15 til 20% víðast hvar. Það er enn að vaxa, samkvæmt tölum hagstofu landsins.