Landsframleiðslan á árinu 2005 varð rúmlega 1.012 milljarðar króna og jókst að raungildi um 7,5% frá fyrra ári. Þetta byggir á bráðabirgðatölum Hagstofunnar um landsframleiðslu fyrir allt árið 2005.

Þessi vöxtur kemur í kjölfar 7,7% vaxtar á árinu 2004. Vegna batnandi viðskiptakjara og minni nettó vaxta- og arðgreiðslna til útlanda jukust þjóðartekjur nokkru meira eða um 8,6%.

Vöxturinn einkenndist af mikilli fjárfestingu, sem jókst um 37,6%, og einkaneyslu sem jókst um 12,3%. Þjóðarútgjöldin jukust því langt umfram landsframleiðsluna eða um 15,8% og leiddi það til verulegs halla á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd, eða 15,9% af landsframleiðslu.