Í dag var síðasti dagur landsfunda hjá bæði Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokkinum. Töluverð átök voru á báðum fundum um margvísleg málefni sem eðli mála samkvæmt voru leidd til lykta og marka stefnu flokkanna í komandi Alþingiskosningum.

Ljúkum aðildarviðræðum við ESB

„Landsfundur VG telur að Íslandi sé best borgið utan ESB en vill ljúka aðildarviðræðum við ESB og setja ferlinu tímamörk, t.d. 1 ár frá kosningum. Þjóðin kjósi síðan um niðurstöður aðildarviðræðna. VG mun ennfremur beita sér fyrir því að tryggðar verði breytingar á stjórnarskrá þannig að þjóðaratkvæðagreiðslan um ESB verði bindandi en ekki aðeins ráðgefandi."

Svo hljómar ályktun landsfundar Vinstri grænna um aðildarviðræður Íslands við ESB. Tillagan var samþykkt með naumum meirihluta á landsfundi flokksins í dag. 52% gesta kusu með ályktuninni en 46% voru á móti henni. Þeir sem mótfallnir voru tillögunni vildu heldur að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um málið áður en viðræðum haldið yrði áfram. Katrín Jakobsdóttir, nýkjörinn formaður VG, studdi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Geti skilað lyklunum

Landsfundi Sjálfstæðismanna lauk með samþykkt stjórnmálaályktunar sem felur meðal annars í sér fyrirheit um skulda- og skattalækkanir, aukna verðmætasköpun og afnám gjaldeyrishafta.

Landsfundur Sjálfstæðismanna samþykkti meðal annars tillögur um sérstakan skattaafslátt vegna afborgana af lánum til eigin íbúðarkaupa. Þá fela tillögurnar það í sér að skuldarar sem ekki sjái sér fært að standast skuldbindingar sínar muni geta skilað lyklum að fasteignum sínum og losna undan skuldum án þess að það leiði til gjaldþrots.

Hvað varðar framtíðarmynt Íslands samþykkti landsfundur að kanna alla möguleika til þrautar, þar með talið hvort taka eigi einhliða upp nýjan gjaldmiðil.