Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafði verið boðaður helgina 3.- 5. nóvember síðastliðinn, en honum var frestað þann 19. september vegna óvæntra Alþingiskosninga.

Nú liggur fyrir að miðstjórn flokksins hefur ákveðið að landsfundur verði haldinn helgina 16. til 18. mars næstkomandi í Laugardalshöll. Hefst fundurinn klukkan 8:00 föstudaginn 16. mars og stendur hann til 17:00 sunnudaginn 18. mars að því er fram kemur á heimasíðu flokksins.

Stefna flokksins mótuð

Í aðdraganda landsfundar vinna málefnanefndir flokksins að drögum að landsfundarályktunum. Á vettvangi nefndanna gefst flokksmönnum tækifæri til að koma að mótun stefnu flokksins segir á vef Sjálfstæðisflokksins .

Á landsfundi er forysta flokksins kjörin. Þá eru stjórnir átta málefnanefnda Sjálfstæðisflokksins kjörnar þar til þess að leiða málefnastarfið milli landsfunda.

Um landsfund

Landsfundur fer með æðsta vald í málefnum flokksins og þar er stefna hans mótuð af hundruðum fulltrúa segir þar jafnframt. Hann er stærsta reglulega stjórnmálasamkunda á Íslandi og störf hans hafa mikil áhrif, bæði inn í stjórnmálin en einnig út á við til þjóðarinnar.