Fyrir níu árum síðan hrundi íslenska bankakerfið í mestu fjármálakreppu sem gengið hefur yfir heiminn í nærri áttatíu ár. Í dag er erfitt að finna nokkurn stað á byggðu bóli þar sem hagvöxtur er eins kröftugur og á Íslandi. Hagkerfið er á áttunda ári samfellds hagvaxtar og stefnir í að núverandi hagvaxtarskeið verði það lengsta í sögu landsins.

Góðærið sem nú blasir við Íslendingum, í mismiklum mæli þó, hefur óneitanlega vakið upp endurminningar um fyrri uppsveiflu. Ein grein í hagkerfinu er að vaxa gífurlega hratt og leiða hagvöxtinn. Hagkerfið vex á svipuðum hraða og nýmarkaðsríki, þjóðar- og ríkisútgjöld hafa aukist hröðum skrefum, laun hafa hækkað og atvinnuleysi er vart mælanlegt.

Fréttir um metsölur í nýjum bílum, heitum pottum og utanlandsferðum eru áberandi, á sama tíma og laun hafa hækkað mikið, krónan hefur styrkst verulega og eignaverð hafa hækkað, sérstaklega fasteignaverð, sem er í methæðum. Þá gera greiningaraðilar ráð fyrir því að framundan sé „mjúk lending“, þar sem vöxtur hagkerfisins heldur áfram en fer minnkandi, án þess að því fylgi skakkaföll í framleiðslu, mikið atvinnuleysi, verðhrun á fjármálamarkaði og því um líkt. Allt eru þetta kunnugleg stef, sem margir hafa túlkað sem fyrirboða um yfirvofandi kreppu. Það gefur tilefni til að rýna í stöðuna og bera saman undirstöðu núverandi hagsveiflu við fyrri hagsveiflu.

Nýtt Ísland?

Fyrr á árinu sagði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, að „2017 væri ekki nýtt 2007.“ Með því átti hann við að þó hagvöxtur væri um þessar mundir kröftugur og atvinnuleysi lítið ætti núverandi efnahagsástand fátt skylt með árinu 2007, þegar síðasta góðæri náði hápunkti.

„Það má í raun segja að það blasi við allt annar veruleiki í íslensku efnahagslífi í dag heldur en fyrir hrun – nýtt Ísland, ef svo má segja,“ segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. „Við höfum í raun verið mjög heppin, þar sem uppsveiflan hefur verið knúin áfram af bata í viðskiptakjörum og þjónustuútflutningi í formi ferðaþjónustunnar. Ytri staða þjóðarbúsins er því gjörbreytt. Í stað þess að vera með einn mesta viðskiptahalla sem sést hefur meðal þróaðra ríkja, fjármagnaðan af gríðarlegum erlendum skammtímaskuldum, hefur Ísland verið með verulegan viðskiptaafgang á þessu hagvaxtarskeiði og gjaldeyrissköpun sem stendur undir miklum þjóðarútgjöldum. Ísland er orðið afgírað land þar sem heimili og fyrirtæki hafa endurskipulagt efnahagsreikninga sína og greitt niður skuldir,“ segir Ásgeir, en einnig hefur ríkissjóður verið að greiða niður skuldir. „Ísland stendur því ekki frammi fyrir sambærilegri hættu á banka- og gjaldeyriskreppu líkt og árið 2008.“

úttekt
úttekt

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .