Framkvæmdastjóri Artikolo ehf. Kolfinna Von Arnardóttir segir fyrirtækið langt komið í viðræðum um kaup á helmingshlut í fatavörumerkinu JÖR. Segir hún að JÖR sé í sóknarhug, stefnt sé að opnun annarrar verslunar í Reykjavík auk þess sem verið er að skoða hvernig koma megi vörumerkinu á framfæri erlendis.

Kaupa fleiri tískuvörumerki

Nálega helmingshluturinn á móti 51% hlut G13 ehf. sem er að mestu í eigu stofnenda vörumerkisins, þeirra Guðmundar jörundssonar og Gunnars Arnars Petersen, var áður í eigu Tailor Holding. Að því félagi stóð Ingibjörg Pálmadóttir aðaleigandi 365 miðla og Eygló Björk Kjartansdóttir.

Artikolo hefur einnig keypt íslenska tískuvörumerkið E-label sem og Reykjavík Fashion Festival og Reykjavík Fashion Academy.

Hluthafar Artikolo eru auk Kolfinnu, Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins í knattspyrnu, unnusta hans Kristbjörg Jónasdóttir einkaþjálfari, Upplitstofan ehf, sem er í eigu Jakobs Hrafnssonar mágs Kolfinnu og Vefpressunar sem er að hluta til í eigu eiginmanns Kolfinnu, Björns Inga Hrafnssonar. Þetta kemur fram í frétt Vísis .