Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ fékk 2,5 milljónir evra frá UEFA fyrir sigurinn á Englendingum í gær, en það jafngildir um 345 milljónum króna. Fyrir að komast í 16 liða úrslitin fékk KSÍ 1,5 milljónir evra , andvirði um 205 milljóna króna.

Hluti af þessu fé rennur til leikmanna Íslenska landsliðsins, en samningur KSÍ við leikmannahópinn um árangursgreiðslur er trúnaðarmál. Heimildir herma þó að leikmenn fái frá helmingi fjárhæðarinnar til tveggja þriðju hluta hennar. Fyrir sigurinn á Englandi í gær fá leikmenn og þjálfarar því um 230 milljónir króna í sinn hlut, eða tæplega tíu milljónir króna á mann.

Fyrir jafnteflin gegn Ungverjalandi og Portúgal fengu leikmennirnir um tvær milljónir króna á mann og fyrir sigurinn á Austurríki um fjórar milljónir. Fjárhagslegur ávinningur hvers leikmanns er því orðinn um 18 milljónir króna.

Fari svo að Ísland beri sigur úr býtum í viðureigninni við Frakka á sunnudag mun KSÍ fá 550 milljónir króna frá UEFA og hver leikmaður fá um 15 milljónir króna í sinn hlut.