Lögfræðistofurnar Landslög og Lovells voru helstu lögfræðilegur ráðgjafar ríkisvaldsins í viðræðum við erlenda kröfuhafa vegna endurskipulagningar bankanna. Að sögn Þorsteins Þorsteinssonar, aðalsamningamanns ríkisstjórnarinnar, skipti miklu máli að kröfuhafarnir komu beint að viðræðunum.

Fjármálaráðuneytið fékk Þorstein Þorsteinsson til að leiða samningaviðræðurnar í febrúar síðastliðnum en einnig voru ráðnir erlendir ráðgjafar, breska ráðgjafarfyrirtækið Hawkpoint, til aðstoðar við samningagerðina. Hawkpoint sá um að vinna gögn um bankana auk þess sem þeir komu að samningaviðræðunum. Einnig komu lögfræðistofurnar Landslög og Lovells að málum en sú síðarnefnda er bresk.

Að sögn Þorsteins voru samningafundirnir með beinni þátttöku kröfuhafanna sjálfra en skilanefndirnar voru með sína eigin ráðgjafa. Kröfuhafarnir kusu ákveðna fulltrúa sem mynduðu kröfuhafaráð sem tók þátt í viðræðunum. Um er að ræða mismunandi kröfuhafa en í meiginatriðum er um að ræða þrjá hópa; fulltrúa innstæðueigenda, skuldabréfaeigenda og lánveitenda. Í flestum tilfellum var um að ræða fulltrúa í formi endurskoðunar- eða lögfræðifyrirtækja. Að sögn Þorsteins fór að rofa til í þessum viðræðum fyrir nokkrum vikum þegar kröfuhafar fóru að gefa kost á þeirri lausn sem nú hefur litið dagsins ljós.

- En hvenær fór að rofa til í þessum viðræðum?

,,Reyndar hafa skilanefndirnar út af fyrir sig lengi haft hugmyndir um að best væri að gömlu bankarnir eignuðust nýju bankana, bæði í Kaupþingi og Glitni, og skilanefnd Kaupþings unnið út frá því síðan í haust. Þá var ekkert vitað um afstöðu kröfuhafanna sjálfra. Það var ekki fyrr en núna á allra síðustu vikum sem kröfuhafarnir hafa í raun gefið kost á þessari lausn og skilanefndirnar hafa unnið mikið verk við að sýna að þetta geti verið góð lausn fyrir kröfuhafana."

- Af hverju var þetta ekki gert fyrr?

,,Ég myndi segja að þessi ferill sem er í gangi núna hafi ekki verið settur af stað fyrr en ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna var tekin við völdum. Ég kom ekki að þessu fyrr en seinni hlutann í febrúar og við hófum ekki þessa ferð fyrr en í mars þegar við vorum tilbúnir. Mér er ekki kunnugt um hvaða áætlun fyrri ríkisstjórn hafð en það var allavega ekki þessi."

__________________________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á vefnum. Hægt að óska eftir lykilorði og áskrift á vefnum.