Viðhorf Íslendinga gagnvart innlendum framleiðsluvörum og framleiðslufyrirtækjum er jákvætt. Þetta er niðurstaða viðhorfskönnunar sem Gallup framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins (SI) og Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Marktækur munur er á viðhorfi fólks eftir kyni, aldri, menntun og búsetu, en ekki eftir tekjum. Konur eru örlítið jákvæðari en karlar sem og íbúar á landsbyggðinni. Þá eykst jákvæðni fólks gagnvart íslenskum framleiðsluvörum og -fyrirtækjum með aldri og aukinni menntun.

Markmið könnunarinnar var að mæla viðhorf Íslendinga til íslenskra framleiðslufyrirtækja og framleiðsluvara. Könnunin var framkvæmd á netinu í apríl síðastliðinn. Í úrtakinu voru 1.448 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, sem valdir voru af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup. Alls svöruðu 826 manns könnuninni, sem jafngildir 0,2% af íbúafjölda landsins, og var þátttökuhlutfallið 57%.

Eldri aldurshópar jákvæðari

Tvær viðhorfsspurningar voru lagðar fyrir svarendur: Á heildina litið, ert þú jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) gagnvart íslenskum framleiðsluvörum? og Á heildina litið, ert þú jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) gagnvart íslenskum framleiðslufyrirtækjum? Svarmöguleikar voru fimm: Mjög jákvæð(ur), Frekar jákvæð(ur), Hvorki né, Frekar neikvæð(ur) og Mjög neikvæð(ur).

Samkvæmt niðurstöðu Gallup er rúmlega 81% svarenda, eða 639 einstaklingar af 826, jákvætt gagnvart íslenskum framleiðsluvörum. Aðeins um 3% eru neikvæð. Ekki var gefin upp ítarleg skilgreining á hugtakinu íslensk framleiðsluvara í könnuninni. Örlítið fleiri konur en karlar eru jákvæðar. Þegar litið er til aldurs voru 94% þeirra í aldurshópnum 65 ára og eldri jákvæð, en jákvætt viðhorf meðal fólks á aldrinum 18-34 ára er 70%.

Tæplega 77% landsmanna eru síðan jákvæð gagnvart íslenskum framleiðslufyrirtækjum, eða alls 598 svarendur, og 4% neikvæð. Aftur eru konur jákvæðari en karlar. 90% þeirra sem eru á aldrinum 65 ára og eldri eru jákvæð, en hjá fólki á aldrinum 18-24 ára er hlutfallið 66%.

Jákvæðni í garð íslenskra framleiðsluvara og framleiðslufyrirtækja eykst með marktækum hætti eftir aldri og aukinni menntun. Þá er jákvæðnin örlítið meiri á landsbyggðinni heldur en í Reykjavík.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .