Í júlí dróst velta í dagvöruverslun saman um 2,4% á föstuverðlagi samanborið við júlí í fyrra. Verð á dagvöru hefur hækkað um 4,4% á síðastliðnum 12 mánuðum. Rannsóknarsetur verslunarinnar, sem er starfrækt í Háskólanum á Bifröst, segir í tilkynningu sinni að ýmsar hagtölur bendi til að botninum sé náð í samdrætti einkaneyslu.

Á föstu verðlagi dróst sala á áfengi saman um 3,4% í júlí miðað við sama mánuð í fyrra, en jókst um 2,7% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi var 6,3% hærra í júlí í ár en í fyrra.

Þá dróst fataverslun saman um 2,0% í júlí en föt hækkuðu í verði um 7,0% á milli ára. Velta skóverslunar jókst á milli júlí-mánaða um 1,4%, á sama tíma hækkaði verð á skóm um 12,5%. Tölur um verslun eru á föstu verðlagi.

Húsgagnaverslun dróst saman um 5,9% í júlí en sala á raftækjum tók við sér og jókst um 13,1%. Raftæki hafa hækkað um 2,0% frá því í júlí 2009.

Verslun fyrir verslunarmannahelgi dróst saman

Rannsóknarsetrið á Bifröst segir að verulega hafi dregið úr verðhækkunum frá síðasta árið og að verð í júlí hafi lækkað í öllum vöruflokkum frá fyrri mánuði, fyrir utan húsgagnaverð sem hækkaði um 1,3% á milli mánaða. Landinn virðist hafa nýtt sér sumarútsölur í júlí verr en í fyrra, en fataverslun var 2% lakari að raunvirði í ár. Þá virðist raftækjaverslun vera að ná sér á strik eftir mikinn samdrátt að undanförnu. Raunvelta í raftækjaverslun var 13,1% meiri í júlí í ár en í fyrra.

Segir í tilkynningu Rannsóknarsetursins að ef marka megi raunsamdrátt í veltu dagvöruverslana og áfengisverslun í júlí samanborið við júlí í fyrra megi ætla að landsmenn hafi ekki gert eins vel við sig í mat og drykk um verslunarmannahelgina og í fyrra.

„Velta í flestum tegundum smásöluverslunar hefur það sem af er þessu ári verið heldur minni en á sama tímabili í fyrra að raunvirði. Samt sem áður hefur náðst jafnvægi í flestum tegunda verslunar nema þeirra sem selja varanlegar neysluvörur. Ýmsar hagtölur benda til að botninum sé náð í samdrætti einkaneyslu. Dæmi um það er hækkun kaupmáttar launa í júlí í fyrsta sinn um langt skeið, eða um 0,3%.“