Meira hefur selst af jeppum af gerðinni Toyota Land Cruiser á fyrstu sjö mánuðum ársins en allt árið í fyrra. Það sem af er ári hafa 235 bílar af gerðinni Toyota Land Cruiser 150 verið nýskráðir hjá Umferðarstofu og tólf Toyota Land Cruiser 200. Ætla má að söluandvirði bílanna nemi rúmum 2,5 milljörðum króna. Þar af skrifast rúmir 2,3 milljarðar á sölu Land Cruiser 150, samkvæmt útreikningum vb.is.

Land Cruiser-jepparnir eru í fjórða sæti yfir mest seldu bílana á þessu sjö mánaða tímabili.

Nýr bíll af gerðinni Toyota Land Cruiser kostar frá 9.840.000 króna en Land Cruiser 200 er frá tæpum 20 milljónum króna.

Þetta er langtum meira en selst hefur af bílum af þessari gerð í gegnum tíðina. Allt árið í fyrra seldust 211 bílar af gerðinni Land Cruiser 150. Enginn nýr Land Cruiser 200 kom hins vegar á markað það árið. Árið 2010 seldust 122 bílar af fyrrnefndri gerð en aðeins 17 af gerðinni Land Cruiser 200, samkvæmt upplýsingum Umferðarstofu. Þá seldust einungis fjórir bílar af gerðinni Land Cruiser 150 árið 2009 en 30 af hinni gerðinni. Árið 2008 sker sig hins vegar úr en þá seldist hvorki fleiri né færri en 201 bíll af gerðinni Land Cruiser 200.

Nýskráningar þessara ökutækja hófust hjá Umferðarstofu árið 2007.