Samkvæmt nýrri mælingu lækkaði væntingavísitalan Gallup um 13,6 stig milli mánaða í júní og er nú 82,4 stig og hefur ekki mælst lægri síðan í maí 2015, að undanskildum desember á síðasta ári. Vísitalan stóð í 104,1  stigum í júní 2018 og hefur því lækkað um 20% frá sama mánuði í fyrra.

Lækkun vísitölunnar nú starfar nær alfarið að mikilli lækkun væntinga til atvinnu- og efnahagsástandsins að sex mánuðum liðnum. Sú vísitala lækkar úr 75 stigum niður í 52 stig milli mánaða og samkvæmt greiningardeild Íslandsbanka eru nú flestir svarendur á því að ástandið verði verra að hálfu ári liðnu en það sé nú.

Jafnframt segir greiningardeildin að litlar breytingar séu hins vegar á mati íslenskra neytenda á núverandi ástandi efnahagslífsins og vinnumarkaðar. Þar sé meirihluti svarenda á því að staðan nú sé góð, enda mælist viðkomandi vísitala ríflega 127 stig.