Íbúum Íslands fjölgaði um hátt í fjögur þúsund manns á öðrum ársfjórðungi ársins en um mánaðamótin júní-júlí bjuggu í heildina 343.960 manns á Íslandi, þar af 219.900 manns í Reykjavík. Heildarfjölgunin nam 3.850 samkvæmt tölum Hagstofunnar , en fjöldinn skiptist í 174.810 karlar og 169.150 konur. Heildarfjöldi erlendra ríkisborgara á landinu við lok tímabilsins var 34.460 manns.

Á ársfjórðungnum fæddust 1.000 börn, en 550 einstaklingar létust, en á sama tíma fluttust 3.400 fleiri til landsins en fluttu af landi brott. Þar af voru 270 fleiri íslenskir ríkisborgarar sem fluttu til landsins umfram brottflutta, en um 3.130 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins. Fluttu fleiri karlar en konur frá landinu.

Flestir íslenskir ríkisborgarar sem fluttu af landi brott á tímabilinu fluttu til Danmerkur, eða 130 manns. Í heildina fluttu 430 íslenskir ríkisborgarar erlendis en þar af fluttu 270 þeirra til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Flestir þeirra Íslendinga sem fluttu heim fluttu frá Noregi, eða 190 manns, Danmörku, eða 170 manns og Svíþjóð eða 110 manns, svo samtals fluttu 480 af þeim 710 Íslendingum sem fluttu heim.

Flestir þeirra 590 erlendu ríkisborgara sem fluttu frá landinu fluttu til Póllands, eða 150 manns. Sama átti við um þá sem fluttu hingað til lands, eða 1.670 manns af þeim 3.720 sem fluttu til landsins komu frá Póllandi. Næst flestir komu frá Litháen, en þaðan fluttu 490 manns.