Íbúar með lögheimili á Íslandi voru þann 1. desember síðastliðinn 318.236 talsins, samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Fjölgaði íbúum um 643 frá því 1. desember 2009 en þá voru hér alls 317.593.

„Frá 1. desember 2009 til 1. desember 2010 fjölgaði íbúum á höfuðborgarsvæðinu (0,7%) og á Norðurlandi eystra (0,3%). Á öðrum landsvæðum fækkaði íbúum, mest á Vestfjörðum (-3,2%), Suðurnesjum (-1,4%) og á Austurlandi (-1,2%). Í öðrum landshlutum var fækkunin óveruleg.

Körlum fækkaði frá 1. desember 2009 til jafnlengdar 2010, en konum fjölgaði um hálft prósent,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Af 318.236 íbúum landsins búa 202.186 á höfuðborgarsvæðinu.