Hafnarfjarðarbær hyggst gefa út framkvæmdaleyfi til Landsnets svo hægt sé að hefjast handa við Suðurnesjalínu 2. Þetta verður gert í kjölfar undirritunar á samkomulagi á morgun á milli Landsnets og Hafnarfjarðarbæjar um raflínur sem liggja nálægt byggð við Vellina og í spennustöð í Hamranesi, samkvæmt Haraldi L. Haraldssyni, bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar.

Rúmt ár er liðið frá því að Landsnet sótti um framkvæmdaleyfi hjá bæjarfélaginu, en útgáfa þess hefur strandað á samningum bæjarsins við Landsnet um ofangreindar raflínur.

Samkvæmt Haraldi L. Haraldssyni, bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, felur samkomulagið við Landsnet í sér að raflínur verði færðar fjær byggð á Völlunum fyrir árslok 2018, auk þess sem línur sem liggi í spennuvirki í Hamranesi fari í jörðu.

Þá muni raflínur úr Suðurnesjalínu 1 vera færðar úr spennuvirkinu yfir í álver Rio Tinto, auk þess sem Landsnet ráðist í aðgerðir til að draga úr hljóðmengun úr spennustöðinni.

Í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að Haraldur L. Haraldsson og Guðmundur I. Ásmundsson, forstjóri Landsnets, undirriti samkomulag þess efnis á morgun við tengivirkið í Hamranesi.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að Suðurnesjalína 2 muni að óbreyttu liggja þvert yfir fyrirhugaðar flugbrautir í Hvassahrauni.