Landsnet hf., sem á og rekur raforkuflutningskerfi landsins, hefur fengið alþjóðlega vottun samkvæmt gæðastjórnunarstaðlinum IST EN ISO 9001:2000, segir í fréttatilkynningu.

Það var vottunarstofan Vottun hf. sem afhenti forstjóra Landsnets staðfestingu þessa efnis. Vottunin nær til flutnings raforku, kerfisstjórnunar, hönnunar, uppbyggingar, reksturs og viðhalds íslenska raforkukerfisins.

Landsnet var stofnað í ársbyrjun 2005 á grundvelli raforkulaga sem Alþingi samþykkti á vormánuðum 2003. Landsnet tengir saman framleiðendur raforku og notendur, þ.e. dreifiveitur og stjórnotendur í orkufrekum iðnaði. Fyrirtækið annast rekstur, viðhald og eftirlit flutningskerfis raforku. Samkvæmt lögum ber Landsneti  einnig að annast kerfisstjórnun flutningskerfisins og skapa skilyrði fyrir viðskipti með raforku í landinu.   Örugg afhending raforku til viðskiptavina Landsnets hefur bein áhrif á þjóðarhag og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins er því mikil. Kappkostað hefur verið að ábyrgðaskipting og verkferlar fyrirtækisins séu vel skilgreindir og skýrir, sem nú hefur fengist staðfest með afhendingu vottunarskýrteinis.