Landsnet, sem annast raforkuflutning, hagnaðist um 4,6 milljarða króna á síðasta ári samanborið við 5,1 milljarð árið 2021. Arðsemi eigin fjár félagsins var um 6,8%. Stjórn Landsnets, sem er í 93,2% eigu ríkissjóðs og 6,8% í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, leggur til að greiddur verði út arður að fjárhæð 3,6 milljarðar króna vegna síðasta rekstrarárs.

Rekstrartekjur Landsnets námu 163 milljónum dala, eða um 23,6 milljörðum króna á gengi dagsins, og jukust um 8,7% á milli ára. Rekstrargjöld jukust um 18,6% og námu 107,7 milljónum dala eða um 15,6 milljörðum króna.

„Rekstur félagsins gekk vel á árinu. Hagnaður ársins er yfir áætlun og má það rekja, að miklu leyti, til aukinna tekna vegna flutningstapa,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi.

„Gjaldskrá vegna flutningstapa er ákvörðuð á grundvelli útboða sem gerð eru fyrir hvern ársfjórðung. Á öðrum ársfjórðungi varð vatnsskortur í vatnsaflsvirkjunum sem leiddi af sér tímabundið hærra verð bæði í innkaupum og endursölu.“

Heildareignir félagsins í árslok námu yfir milljarði dala, eða tæplega 149 milljörðum króna. Eigið fé var um 482 milljónir dala, eða um nærri 70 milljarðar króna, og eiginfjárhlutfall var 46,7%.

„Hlutverk okkar hjá Landsneti er að byggja upp flutningskerfi sem þarf vera í stakk búið að mæta kröfum samtímans ásamt því að geta tekist á við þær áskoranir sem framtíðin býður upp á. Það fylgir því mikil ábyrgð að reka flutningskerfi raforku hvort sem það snýr að afhendingaröryggi, náttúru eða hagkvæmri nýtingu fjármuna,“ segir Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsneti.

„Við lítum svo á að flutningslínurnar okkar séu í lykilhlutverki þegar kemur að orkuskiptum. Til að hámarka nýtingu orkukerfisins og ná markmiðum þjóðarinnar í orkumálum er nauðsynlegt að ráðast í sambærilegar úrbætur og aðrar þjóðir hafa gert á fyrirkomulagi orkuviðskipta. Framundan eru spennandi tímar og það er því mjög ánægjulegt að ársreikningurinn sýnir styrk fyrirtækisins og getu til að takast á við framtíðina með nýjum eigendum.“