*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 18. febrúar 2021 16:15

Landsnet hagnast um 3,5 milljarða

Rekstrartekjur Landsnets námu 130,5 milljónum dollara árið 2020, sem er um 7% lægra en árið áður.

Ritstjórn
Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets.
Aðsend mynd

Landsnet hagnaðist um 27,3 milljónir dollara, sem samsvarar 3,5 milljarða króna, árið 2020. Hagnaðurinn lækkaði þó um ríflega 10% milli ára en hann nam 30,3 milljónum dollara árið áður. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 6,9% á árinu 2020 samanborið við 7,4% árið 2019.

Rekstrartekjur félagsins lækkuðu einnig um 7% milli ára og námu 130,5 milljónum dollara. Tekjur af flutningi til stórnotenda lækkuðu um 3,2 milljónir dollara milli ára, sem er um 2,1% lækkun frá fyrra ári. Tekjur af flutningi til dreifiveitna lækkuðu um 3,6 milljónir dollara, eða um 4%, milli ára. Gjaldskrá dreifiveitna er í íslenskum krónum og því hafði veiking krónunnar nokkur áhrif á niðurstöðuna. Einnig lækkuðu tekjur vegna sölu á kerfisþjónustu og orkutöpum.  

Rekstrargjöld Landsnets lækkuðu um 6,3 milljónir dollara á milli ára, m.a. vegna veikingu krónunnar. Í ársreikningnum kemur fram að aukinn kostnaður var á árinu vegna afleiðinga óveðra og aukinna viðhaldsverkefna. Á árinu var unnið í uppbyggingu eftir óveður í desember 2019 og lauk henni á haustmánuðum. 

Heildareignir félagsins í árslok 2020 námu 911 milljónum dollara, samanborið við 852 milljónir dollara í árið áður. Á móti kemur jukust skuldir félagsins um rúmlega 45 milljónir dollara og námu 507 milljónum dollara í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfallið var þá 44,4% samanborið við 45,9% árið áður. 

„Á fyrri hluta árs voru miklar áskoranir tengdar óveðri sem hafði mikil áhrif á flutningskerfið og starfsemina. Við tók uppbygging á innviðum og áhersla var lögð á verkefni sem voru sett í forgang af stjórnvöldum í kjölfar óveðranna. Þetta var stærsta framkvæmdaár félagsins frá upphafi og við erum stolt af því að hafa náð markmiðum þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður. Framkvæmdir gengu vonum framar þrátt fyrir þær áskoranir sem fylgdu Covid-19 faraldrinum, þar sem tekist var á við einstakar tafir með breyttri forgangsröðun verkefna,“ er haft eftir Guðlaugu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs í tilkynningu Landsnets.  

„Við horfum bjartsýn til nýs árs. Verkefnastaðan er áfram krefjandi, félagið stendur vel gagnvart fjármögnun og framundan eru spennandi tímar við áframhaldandi styrkingu flutningskerfisins.“