Landsnet undirbýr endurnýjun og styrkingu raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi. Framkvæmdakostnaður er áætlaður um 22 milljarðar króna á verðlagi í ágúst 2008 og mannaflaþörf um 380 ársverk segir í tilkynningu félagsins.

Drög að matsáætlun vegna framkvæmdanna hafa nú verið lögð fram til kynningar og er athugasemdafrestur til 16. desember næstkomandi.

Í tilkynningu segir að verkefnið, sem fengið hefur vinnuheitið Suðvesturlínur, tekur til meginflutningskerfis raforku frá Hellisheiði að Geithálsi og Hafnarfirð og áfram út á Reykjanes. Undirbúningur hefur staðið yfir frá árinu 2005 og varðar beinlínis 12 sveitarfélög og þar með meirihluta landsmanna.

Meginflutningskerfið á Suðvesturlandi byggist á loftlínum en á nokkrum stöðum er gert ráð fyrir jarðstrengjum vegna tenginga við stórnotendur. Í heildina er um að ræða nýbyggingu á u.þ.b. 123 km af loftlínum og 17 km af endurnýjuðum línum. Nýjar tengingar orkunotenda og virkjana við meginflutningskerfið verða alls 34 km af loftlínum og 33 km af háspennustrengjum í jörðu. Ný tengivirki rísa á Hellisheiði, við Sandskeið, við Hrauntungur sunnan Hafnafjarðar og á Njarðvíkurheiði en tengivirki við Rauðamel verður fjarlægt. Jafnframt er gert ráð fyrir umfangsmiklu niðurrifi á eldri línum, eða samtals 96 km af loftlínum.

Áætlaður framkvæmdakostnaður er um 22 milljarðar króna, á verðalagi í ágúst 2008. Mannaflaþörfin er áætluð um 380 ársverk, skipt á fjögur ár, en stefnt er að því að framkvæmdir geti hafist haustið 2009 og að þeim verði lokið um mitt ár 2012. Þessar tímasetningar eru þó birtar með fyrirvara um breytingu segir í tilkynningu.