Landsnet og hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri hafa gert með sér samkomulag um þróun nýrrar hugbúnaðarlausnar sem gerir Landsneti kleift að selja umframraforku á raforkuneti sínu í rauntíma.

Hugbúnaðarlausnin er unnin í nánu samstarfi starfsfólks Landsnets og Kolibri í teymi stjórnenda, sérfræðinga, hönnuða, forritara og teymisþjálfara.

Hugbúnaðurinn heldur utan um fyrrnefndan raforkumarkað og gerir starfsfólki Landsnets kleift að hafa umsjón með honum.

Landsnet annast flutning raforku á Íslandi og stýrir uppbyggingu flutningskerfisins. Landsnet stýrir jafnframt raforkukerfi landsins og tengir þannig saman framleiðendur og notendur raforku.

Kolibri starfar við að aðstoða íslensk fyrirtæki við að þróa stafrænar lausnir.

Ólafur Örn Nielsen, framkvæmdastjóri Kolibri, segir að flækjustig verkefnisins sé hátt, en að starfsfólk fyrirtækisins hlakki til samstarfsins:

„Við hlökkum til samstarfsins við Landsnet. Það hefur reynst okkur vel að leysa verkefni með því að stilla upp þverfaglegu teymi þar sem starfsfólk beggja fyrirtækja vinnur náið saman. Flækjustig verkefnisins er hátt og miklar kröfur gerðar um gæði og uppitíma. Jafnframt er virkilega spennandi og gefandi fyrir okkur að stuðla að betri nýtingu á þeirri dýrmætu raforku sem við Íslendingar erum að framleiða.“