*

laugardagur, 24. október 2020
Innlent 20. apríl 2020 18:02

Landsnet og Laki Power í samstarf

Landsnet og Laki Power hafa gert samkomulag um samstarf á sviði vöruþróunar og útbreiðslu á nýju eftirlitskerfi Laka Power.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Landsnet, flutningsaðili raforku á Íslandi, og Laki Power, fyrirtæki á sviði rauntímaeftirlits með flutnings- og dreifikerfum raforku, hafa gert með sér samkomulag um samstarf á sviði vöruþróunar og útbreiðslu á nýju eftirlitskerfi Laka Power, LKX-201, í íslenska raforkuflutningskerfinu. Landsnet greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Eftirlitskerfinu er lýst á eftirfarandi hátt í fréttatilkynningunni: „Eftirlitskerfi Laka Power er einstakt og gerir það mögulegt að fylgjast með ástandi háspennuinnviða í rauntíma. Kerfið byggir á PowerGRAB tækni félagsins sem vinnur raforku úr rafsegulsviðinu sem umlykur háspennulínur. Lausnin er afar umhverfisvæn og skilar allt að 100 sinnum meira afli en aðrar samanburðarhæfar lausnir á markaði.“

Landsnet hefur komið að þróun og prófunum á eftirlitskerfinu LKX-201 frá upphafi og í dag eru tvær frumgerðir í notkun í íslenska raforkukerfinu. „Landsnet leggur áherslu á að styðja við íslenska nýsköpun og sjáum við mikil tækifæri fyrir eftirlitskerfi og tækni Laka Power í flutningskerfinu. LKX-201 kerfið er vistvæn lausn sem býður upp á áður óþekkta möguleika í rauntímaeftirliti sem geta haft í för með sér lægri rekstrarkostnað, betri nýtingu innviða og aukið rekstraröryggi" segir Nils Gústavsson, framkvæmdastjóri hjá Landsneti, í tilkynningunni.

Sigurjón Magnússon, framkvæmdastjóri Laka Power, segir að samkomulagið við Landsnet styrki félagið í sókn sinni á alþjóðlegan markað. „Flutnings- og dreifiaðilar raforku þurfa í auknum mæli að reiða sig á rauntímaupplýsingar til að tryggja rekstraröryggi. Það er því mikilvægt að geta sýnt fram á virkni og útbreiðslu eftirlitskerfis á okkar heimamarkaði þegar kemur að viðræðum við erlend félög. Stuðningur Landsnets í vöruþróun og prófunum undanfarin ár hefur verið ómetanlegur og erum við hæstánægð með að taka næsta skref í okkar samstarfi með þessu samkomulagi."

Stikkorð: Landsnet Laki Power