Landsnet og Reykjavík DC hafa skrifað undir flutningssamning vegna raforkuafhendingar fyrir gagnaver við Korputorg. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Svandís Hlín Karlsdóttir forstöðumaður viðskiptaþjónustu- og þróunar segir að Reykjavík DC sé fjórða gagnaverið sem Landsnet skrifar undir flutningssamning við.

„Það er ánægjulegt að taka þetta skref með Reykjavík DC en gagnaverið þeirra er fyrsta gagnaverið á höfuðborgarsvæðinu og um leið eru þau tíundi stórnotandinn sem tengist við kerfið hjá okkur.  Framtíðin er spennandi og við bjóðum þau velkomin í hópinn og vonumst til að eiga gott áframhaldandi samstarf."

Hátæknigagnaverið Reykjavík DC er í eigu Opinna Kerfa, Sýnar, Reiknistofu Bankanna og Korputorgs.

„Samningur Reykjavík DC við Landsnet er lokahnykkurinn á þeirri vegferð að gagnaverið á Korputorgi geti tekið til starfa í næsta mánuði eins og stefnt hefur verið að," er haft eftir Sævari Þór Ólafssyni, stjórnarmanni í Reykjavík DC, í tilkynningunni.