Forstjóri Landsnet skrifaði í dag undir samkomulag um raforkuflutnigna fyrir kísilver Thorsil ehf. í Helguvík. Rekstur kísilversins á að hefjast í ársbyrjun 2018 og framkvæmdum Landsnets skal vera lokið í desember 2017. Áætlað er að kostnaður við að tengja kísilverið við meginflutningskerfi Landsnets sé um 2,5 milljarðar króna.

Undirbúningur og hönnun verksins mun hefjast strax og stefnt er að því að framkvæmdir muni hefjast haustið 2016. Áætluð aflþörf kísilversins er 87 megavött (MW) að jafnaði.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets segir í tilkynningu um málið: „Þessi framkvæmd eykur afhendingaröryggi til viðskiptavina okkar í Helguvík því að tveir 132 kV jarðstrengir verða á milli Stakks, afhendingarstaðar okkar þar, og tengivirkisins á Fitjum að framkvæmdum loknum. Jafnframt styttist í að framkvæmdir hefjist við Suðurnesjalínu 2, milli Hafnarfjarðar og Rauðamels, sem styrkir flutningskerfið á Reykjanesi til muna og gjörbreytir afhendingaröryggi raforku fyrir bæði íbúa og fyrirtæki á svæðinu,“

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að Thorsil hefði tryggt sér raforku.