Ekki á að fjármagna byggingu nýs Landspítala með sölu ríkiseigna, heldur eigi að nota söluandvirði slíkra eigna til að greiða niður skuldir ríkissjóðs að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrr í vikunni að skoða mætti hvort ekki væri hægt að fjármagna byggingu nýs spítala með eignasölu.

Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 segir Bjarni að helst væri til skoðunar sala á hluta af eignarhlut ríkisins í Landsbankanum og að söluandvirði á þeim hlut eigi að nota til að greiða niður skuldir. Leggur hann áherslu á að lækka verði vaxtabyrði ríkissjóðs og að það verði ekki gert með aðhaldi í ríkisrekstri. Aðhaldsstig hafi verið hátt undanfarin ár.