Pokasjóður afhenti í dag skurðsstofum Landspítalans við Hringbraut nýja brjóstholssjá. Slíkt tæki kostar níu milljónir króna. Þetta er fyrsta tækið sem Pokasjóður færir sjúkrastofnun, í samræmi við breyttar áherslur sjóðsins. Dregið verður tímabundið úr hefðbundnum úthlutunum Pokasjóðs en fjármunir þess í stað lagðir til tækjakaupa fyrir sjúkrastofnanir landsins.

Tómas Guðbjartsson skurðlæknir tók við gjöfinni fyrir hönd spítalans. Fulltrúar Pokasjóðs við afhendinguna voru Bjarni Finnsson formaður stjórnar sjóðsins, Finnur Árnason forstjóri Haga, Höskuldur Jónsson fyrrverandi forstjóri ÁTVR og Ómar Valdimarsson forstjóri Samkaupa.

Pokasjóður verslunarinnar er jafnframt búinn að skuldbinda sig til að kaupa lungnatæki fyrir Landspítalann að andvirði 25 milljónir króna.