„Það yrði gott að ná þessum pening inn. Við gerum okkar besta en þessar upphæðir eru alltaf svipaðar milli ára,“ segir Sigrún Guðjónsdóttir, deildarstjóri á fjármálasviði Landspítalans, í samtali við Morgunblaðið .

Þar kemur fram að Landspítalinn eigi inni rúmar 1.230 milljónir króna í útistandandi kröfum. Ógreidd sjúklingalegugjöld nemi um 310 milljónum króna. Skuldir á erlendum kennitölum, sem oft eru skuldir ósjúkratryggðra við spítalann, eru um 220 milljónir, og þá nema aðrar skuldir við spítalann um 700 milljónum króna.

Sigrún segir hins vegar að það gangi verr að innheimta nú heldur en áður og staðgreiðsluhlutfallið á Landspítalanum hafi jafnframt lækkað. Geri það að verkum að það hlutfall sem ekki næst inn hækki.