Forsvarsmenn Landspítalans (LSH) og Háskólans í Reykjavík (HR) hafa skrifað undir samstarfssamning um þjónustu, rannsóknir og kennslu á sviði heilbrigðisverkfræði og stofnun Heilbrigðistækniseturs.

Fram kemur í tilkynningu að markmið samningsins er að skapa umgjörð og sérhæfða aðstöðu við HR og LSH fyrir kennslu, rannsóknir og þróunarverkefni á sviði heilbrigðisverkfræði m.a. með því að koma á fót Heilbrigðistæknisetri. Setrið er rekið sameiginlega á vegum LSH og HR, og er staðsett í húsnæði HR við Nauthólsvík. Þar verður rekin sú vísinda- og þróunarstarfsemi sem greininni er nauðsynleg og nýtist jafnt deildum LSH og HR. Heilbrigðisverkfræði hefur verið kennd við Tækni- og verkfræðideild HR undanfarin 8 ár og hefur verið óformlegt samstarf milli aðila frá upphafi.

Háskólinn í Reykjavík mun annast menntun háskólanema í heilbrigðisverkfræði og bera faglega ábyrgð á kennslu greinarinnar auk þess að standa fyrir rannsóknum á sviði heilbrigðisverkfræði. HR mun taka þátt í þróun á tækni og notkun hennar við lækningar, hjúkrun og aðrar greinar á Landspítala. Þá mun Landspítali koma að verklegu námi nemenda í heilbrigðisverkfræði við HR og leggja til húsnæði og aðstöðu fyrir þá meðan þeir eru í verknámi.