Ásmundi Helgasyni, dómara við Landsrétt, var veitt lausn frá embætti á ríkisstjórnarfundi í dag. Skömmu síðar, á sama ríkisstjórnarfundi, var hann skipaður dómari við Landsrétt á ný. Þetta má ráða af dagskrár ríkisstjórnarfundar frá í dag.

Ásmundur var einn þeirra fjögurra dómara sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, lagði til að skipaður yrði í Landsrétt við stofnun hans. Hann hafði hins vegar ekki verið í hópi þeirra fimmtán sem dómnefnd um hæfni umsækjenda skipaði í hóp hinna fimmtán hæfustu.

Sjá einnig: Þarf að hætta til að byrja aftur

Eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu, hafa téðir fjórir dómarar ekki sinnt dómstörfum við réttinn. Hafa fjórir dómarar því verið settir við réttinn um nokkurt skeið.

Í upphafi árs losnaði sæti í Landsrétti í kjölfar þess að Ingveldur Einarsdóttir var skipuð í Hæstarétt. Fjögur sóttu um stöðuna, „óvirku“ landsréttardómararnir Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir og héraðsdómararnir Sandra Baldvinsdóttir og Ástráður Haraldsson. Téð Sandra er nú settur dómari við Landsrétt fram á sumar.

Dómnefnd um hæfni umsækjenda mat Ásmund hæfastan til starfans og féllst Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, á að skipa hann í starfið. Afleiðingin er sú að nauðsynlegt verður að auglýsa á nýjan leik laust embætti dómara við Landsrétt.

Sjá einnig: Hipsum-haps í umsögnum dómnefndar

Álitamál höfðu verið uppi um hvort það stæðist lög að skipa einstakling aftur í embætti sem hann væri nú þegar í. Álitsgerð var unnin í dómsmálaráðuneytinu af þessum sökum og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert girti fyrir það ef téður einstaklingur myndi biðjast lausnar áður en til skipunar á ný kæmi. Áhöld eru uppi um hvort slíkt stenst og hefur Ástráður Haraldsson boðað að hann muni láta reyna á lögmæti slíks verks.