*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 12. mars 2019 11:12

Landsréttur frestar öllum málum

Eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu gegn íslenska ríkinu verður bið á frekari málsmeðferðum í Landsrétti.

Ritstjórn
Sigríður Ásthildur Andersen dómsmálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi gegn íslenska ríkinu og segir dómara við Landsrétt rangt skipaða og því hafi dómstóllinn verið vanhæfur til að dæma í máli manns sem áfrýjaði til dómstólsins. Þetta kemur fram í úrskurði sem birtur var á vef dómstólsins í morgun.

Fimm dómarar við Evrópudómstólinn dæmdu manninum í hag, en tveir skiluðu sératkvæði. Er manninum jafnframt dæmdar 15 þúsund evrur, eða sem nemur tveimur milljónum íslenskra króna.

Í dag funda dómarar Landsréttar um dóm Mannréttindadómstólsins, að því er mbl.is hefur eftir Birni L. Bergssyni skrifstofustjóra Landsréttar, en hann segir að búið sé að fresta öllum málum sem voru á dagskrá dómaranna fjögurra sem Evrópudómstóllinn segir rangt skipaða.

Segir hann ekki vera búið að taka saman hversu mörg mál dómararnir fjórir sem dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen skipaði umfram fjóra af 15 sem sérstök dómnefnd skipuð dómurum hafði metið hæfusta.

Um er að ræða þau Arnfríði Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Bragadóttir, en sú fyrstnefnda var skipuð í dóminn sem dæmdi manninn sem áfrýjaði til Mannréttindadómstólsins. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður mannsins skaut málinu til Mannréttindadómstólsins sem fékk með eindæmum skjóta meðferð hjá dómstólnum.

Þegar hafa íslenskir dómstólar dæmt miskabætur þremur af þeim dómurum sem ekki voru skipaðir í dóminn þó væru meðal þeirra 15 sem matsnefndin hafði raðað í 15 efstu sætin yfir hæfa dómara. Loks hefur Jón Höskuldsson héraðsdómari fengið fjórar milljónir króna í skaðabætur.