*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Innlent 3. júní 2019 16:29

Landsréttur hafnaði rökum Arion

Sveinn Andri Sveinsson þarf ekki að víkja sem skiptastjóri Wow air en Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Landsréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Sveinn Andri Sveinsson væri ekki vanhæfur til að gegna starfi skiptastjóra þrotabús Wow air. Krafa þess efnis hafði komið frá Arion banka en að mati Landsréttar tókst bankanum ekki að tefla fram ástæðum sem gæfu tilefni til að draga hlutdrægni Sveins í efa.

Meðal málsástæðna Arion banka var störf Sveins Andra sem lögmaður DataCell og Sunshine Productions í máli þeirra gegn Valitor hf. sem er dótturfélag Arion. Í apríl var Valitor dæmt til að greiða 1,2 milljarð í bætur til félaganna. Taldi Arion að Sveinn Andri hefði slíka hagsmuni af því máli að nánast mætti telja hann aðila þess.

Til rökstuðnings því benti bankinn á að Sveinn Andri samdi við umbjóðendur sína um þóknun sem er að hluta til hagsmunatengd. „Þótt sá hluti þóknunar varnaraðila gæti numið umtalsverðri fjárhæð verður því ekki jafnað til þess að hann eigi aðild að dómsmálinu,“ segir í niðurstöðukafla úrskurðar Landsréttar.

Að öðru leyti þótti bankinn ekki hafa teflt fram ástæðum sem valdið gætu vanhæfi hans. Þá liggur ekki fyrir að Sveinn Andri hafi gerst sekur um athæfi sem geri hann ótrúverðugan nauðsynlegs trausts sem skiptastjórar þurfi að njóta.

Stikkorð: Valitor Wow