Eystri-Landsréttur í Kaupmannahöfn hafnaði því á föstudag að setja lögbann á FIH bankann, sem er í eigu Kaupþings banka, vegna eins fyrrverandi starfsmanns Alm.Brand.

Trygginga -og fjármálafyrirtækið Alm. Brand krafðist þess að lagt yrði lögbann á að Brian Kudsk, fyrrverandi yfirmaður verðbréfadeildar fyrirtækisins, hæfi vinnu hjá FIH í byrjun júlí. Hann ásamt 17 starfsfélögum sagði upp um áramótin hjá Alm Brand.

Í frétt Berlingske Tidende kemur fram að Alm. Brand hélt því fram að starfsmennirnir mættu ekki starfa hjá samkeppnisaðila fyrr en eftir allt að þrjú ár. Málið vakti á sínum tíma nokkra athygli í Danmörku, því sjaldgæft er að fyrirtæki freisti svo marga starfsmanna á einu bretti. Áður en til þess kom höfðu FIH og Alm. Brand rætt um að FIH keypti verðbréfadeild Alm. Brand. og lagt var fram tilboð, sem var hafnað.