Lagafrumvörp um stofnun millidómsstigs voru samþykkt á Alþingi í morgun. Lögin fjalla um dómstóla og lög um meðferð einkamála og sakamála. Með samþykki laganna verður til nýr áfrýjunardómstóll sem mun nefnast Landsréttur. Hann verður staðsettur í Reykjavík og munu lögin taka gildi í byrjun árs 2018.

Frumvarpið var lagt fram af Ólöfu Nordal innanríkisráðherra. Þá verða þrjú dómstig í landinu - héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur. Sameiginleg stjórnsýsla allra þriggja dómstiga verður fært undir nýja stofnun á vegum dómstólanna. Þannig verður sjálfstæði þeirra styrkt og stjórnsýsla efld.

Að sögn Innanríkisráðuneytisins munu breytingarnar snerta allt samfélagið. Fyrst og fremst muni það þó snerta þá sem leita þurfa úrlausnar dómstóla bæði í einkamálum og sakamálum. Breytingarnar háfa þá einnig mikla þýðingu fyrir þá sem starfa í dómskerfinu - lögmenn, dómara og ákæruvaldið, en einnig aðrar stofnanir réttarvörslukerfisins.