Landsréttur hefur staðfest að verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) gegn Bláfugli ehf. séu lögmætar. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu FÍA í dag .

Kjaradeila Bláfugls og FÍA hefur staðið frá því í janúar, þegar að FÍA vísaði viðræðum til ríkissáttasemjara. Áður hafði Bláfugl sagt upp öllum 11 fastráðnu flugmönnum félagsins á gamlársdag og í staðinn fengið inn nýja flugmenn til að taka við strax daginn eftir í verktakavinnu.

Sjá einnig: Launin þurfi að lækka um 35%

Verkfallsaðgerðir hófust í febrúar á þessu ári og hafði Bláfugl óskað eftir lögbanni á þær en því hefur nú verið hafnað af sýslumanni, héraðsdómi og nú loks Landsrétti. Landsréttur staðfestir því með dómi sínum að forgangsréttarákvæði FÍA hafi ekki verið fallið úr gildi í lögskiptum þeirra við Bláfugl. Því hafi Bláfugli verið skylt að fara áfram eftir eldri samningnum á meðan að það hafi enn þá verið ósamið og ekkert verkfall komið á.

Sjá einnig: Flugmenn boðið betur en flestar stéttir

Þá var einnig staðfest að verkfallið hafi verið bindandi fyrir alla launþega í starfsgreininni hvort sem þeir voru innan stéttarfélagsins eða ekki. Þá hafi þeir flugmenn sem að flugu fyrir Bláfugl í verkfallinu brotið í bága við lög og því hafi aðgerðir FÍA til að verja verkfallið verið löglegar. Einnig þarf Bláfugl að bera hallann af því að upplýsa ekki um kjör þeirra flugmanna sem nú starfa fyrir félagið í verktakavinnu.