Landsréttur hefur staðfest skilorðsbundinn fangelsisdóm Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrum borgarfulltrúa. Júlíus var dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok árs 2018. RÚV greinir frá þessu.

Við fyrirtöku málsins í héraði fór saksóknari fram á 8-12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi en líkt og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma var Júlíus sakaður um að hafa þvættað 49 til 57 milljónir króna í gegnum sjóð sem hann var rétthafi af. Fjármunirnir þar komu til vegna viðskipta bílaumboðsins Ingvars Helgasonar á árunum 1982 til 1993.

Júlíus viðurkenndi að hafa ekki greitt skatta af umboðslaunum en kvað brotin vera fyrnd og að peningaþvætti ætti ekki við í því máli. Því var héraðsdómur ekki sammála og dæmdi hann líkt og áður segir fyrir peningaþvætti.