*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 19. júlí 2018 10:03

Landsréttur staðfestir mat í WikiLeaks-máli

Landsréttur hefur staðfest synjun héraðsdóms á beiðni Valitor um að dómkveðja nýja matsmenn í máli WikiLeaks gegn kortafyrirtækinu.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Valitor í hafnafirði.
Aðsend mynd

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna beiðni Valitor um að dómkveðja nýja matsmenn í máli Sunshine Press Productions ehf (WikiLeaks) og DataCell gegn Valitor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sveini Andra Sveinssyni, lögmanni Sunshine Press og DataCell.

Málið varðar greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar lokunar Valitor á greiðslugátt fyrir alþjóðleg framlög til WikiLeaks árið 2011, en hæstiréttur úrskurðaði árið 2013 að lokun Valitor á gáttinni, sem Valitor og DataCell höfðu gert með sér samning um, hafi verið ólögmæt.

Mat var gert á tjóni stefnenda, sem hljóðaði upp á 3,2 milljarða króna, en Valitor vildi ekki una því og fór fram á yfirmat. Þegar það hafði verið framkvæmt vildi Valitor hinsvegar ekki leggja það fram, og fór fram á nýtt undirmat. Þeirri kröfu var synjað af héraðsdómi, enda hafi niðurstaða legið fyrir um þau atriði sem matsbeiðnin lýtur að, ýmist í undirmati eða yfirmatinu. Þeim úrskurði héraðsdóms var áfrýjað til Landsréttar, en hann hefur nú staðfest úrskurð héraðsdóms.

Í tilkynningunni frá lögmanni Sunshine og DataCell nú í morgun er Valitor sakað um að hafa reynt að tefja málið í lengstu lög, sem er sagt sérstakt, þar sem krafan hækki um 2 milljónir á dag. Reifað er að farið hafi verið fram á kyrrsetningu eigna Valitor vegna áhyggja af fjárhagsstöðu þess, en þeirri kröfu var hafnað af sýslumanni eftir að eigendur Valitor settu 750 milljónir króna af nýju hlutafé í félagið. Synjun sýslumanns hefur verið kærð til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Þá er Valitor sakað um að hafa gerst þáttakandi í „fordæmalausri aðför fjármálafyrirtækja gegn WikiLeaks“, sem sprottin sé af pólitískum rótum, og málið kallað „gróft alþjóðlegt samsæri“.

Stikkorð: Valitor WikiLeaks
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is