Andri Már Ingólfsson, fyrrum eigandi flugfélagsins Primera Air og fjárfestir, þarf ekki að greiða Eik fasteignafélagi skaðabætur vegna sölu á Hótel 1919 fyrir 5 árum síðan. Þessa niðurstöðu héraðsdóms staðfesti Landsréttur í dag .

Meginkrafa félagsins byggði á rangri færslu viðhaldssjóðs félagsins sem skammtímaskuldbindingu í bókhaldi þess, í andstöðu við þágildandi skattalög. Hefði þetta rýrt verðgildi hótelsins um 53 milljónir króna, sem er sú upphæð sem Eik þurfti að reiða fram til að greiða úr málinu, og fór félagið fram á sömu upphæð í skaðabætur vegna þessa.

Landsréttur taldi hinsvegar að Eik hefði vitað hvernig í pottinn var búið þegar kaupin fóru fram („ekki verið í góðri trú um hvort rétt hefði verið staðið að skattskilunum viðhaldssjóðsins við umrædd kaup“, eins og það er orðað í dómnum).

Ennfremur hefðu ekki falist sérstök loforð um að þetta tiltekna atriði væri í lagi í yfirlýsingum Andra, og Eik hefði því ekki getað talið sig fullvisst um að verða ekki fyrir skaða vegna skattalegrar leiðréttingar þess.

Seinni hluti kröfu Eikar snérist um ranglega eignfærðan kostnað upp á tæpar 580 þúsund krónur, en þá upphæð taldi Landsréttur, með hliðsjón af gallaþröskuldi kaupsamningsins, ekki mynda rétt til skaðabóta.