*

fimmtudagur, 28. maí 2020
Innlent 27. mars 2020 15:39

Landsréttur sýknar í Landsréttarmáli

Íslenska ríkið var í Landsrétti nú rétt í þessu sýknað af skaðabótakröfum Eiríks Jónssonar og Jóns Höskuldssonar.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Íslenska ríkið var í Landsrétti nú rétt í þessu sýknað af skaðabótakröfum Eiríks Jónssonar og Jóns Höskuldssonar um bætur vegna skipunar dómara við Landsrétt sumarið 2017. Með því hefur dómum í héraði verið snúið við.

Bæði Eiríkur og Jón voru í hópi þeirra fjögurra sem dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt mat hæfasta til að gegna starfinu. Þeim var hins vegar vikið til hliðar með ákvörðun Sigríðar Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, og sú ákvörðun síðar staðfest af Alþingi.

Áður höfðu Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson stefnt ríkinu þar sem þeir töldu skipunina ólögmæta. Í Hæstarétti var fallist á að ekki hefði verið staðið rétt að ferlinu við skipunina og þeim dæmdar miskabætur. Kröfu um fjárhagslegt tjón var hins vegar hafnað þar sem þeim hafði ekki tekist að sanna tjón sitt.

Í máli sínu krafðist Eiríkur viðurkenningar á bótaskyldu en Jón, sem er héraðsdómari, krafðist mismunar á launum héraðs- og landsréttardómara út starfsævina. Í héraði var ekki fallist á ýtrustu kröfur hans heldur bætur að álitum, upphæð fjórar milljónir króna, dæmdar. Í máli Eiríks var bótaskylda viðurkennd.

„Sönnunarbyrði hvílir á [stefnendum] um það hvort skilyrðum almennu skaðabótareglunnar um orsakasamband og sennilega afleiðingu sé fullnægt. Þarf stefndi því að sýna fram á    honum  hafi  borið  skipun  í  embætti  dómara  við  Landsrétt  umfram  aðra umsækjendur sem uppfylltu almenn hæfisskilyrði laga,“ segir í dómi Landsréttar

Var það mat meirihluta dómsins, tveggja setudómara, að þeir hefðu ekki sýnt fram á að þeir hefðu átt lögvarinn rétt til starfans. Var ríkið því sýknað af kröfu þeirra. Einn dómara í málinu skilaði sératkvæði og taldi að staðfesta bæri héraðsdómana og ríkinu bæri að bæta tjón þeirra.