Landssamtök lífeyrissjóða telja eðlilegt að gildistöku ákvæða vegna heimilda lífeyrissjóða til innlendra verðbréfalána  verði frestað að því er kemur fram í frétt á heimasíðu samtakanna. Í ljósi aðstæðna á verðbréfamörkuðum og undirbúnings af hálfu sjóðanna, m.a. vegna breytinga á fjárfestingastefnum þeirra telja Landssamtök lífeyrissjóða  eðlilegt að sjóðunum gefist nægur tími til að mæta þessum auknu heimildum sem gera lífeyrissjóðunum kleift að taka þátt í viðskiptum á skipulögðum lánamarkaði með innlend verðbréf.

Þessi sjónarmið Landssamtaka lífeyrissjóða koma fram í umsögn samtakanna til Efnahags- og skattanefndar Alþingis.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa kynnt fjármálaráðuneytinu þá afstöðu sína að mikilvægt sé að rýmka reglur lífeyrissjóðanna varðandi fjárfestingarheimildir þeirra. Þó svo að þessar tillögur hafi að sinni ekki náð fram að ganga er þó ljóst að megintilgangur frumvarpsins um heimildir sjóðanna um verðbréfalán er til rýmkunar á fjárfestingarheimildum sjóðanna.

Landssamtök lífeyrissjóða mæla með samþykki frumvarpsins, en telja þó eðlilegt að gildistöku ákvæða vegna heimilda lífeyrissjóða til innlendra verðbréfalána  skv. 6. gr. verði frestað.