Íslenskir lífeyrissjóðir hafa fjárfest takmarkað í nýsköpunarfyrirtækjum hingað til og er helsta skýringin á því að fjárfestingartækifæri í nýsköpun hafa verið afar fá. Núna eru hins vegar 3-4 nýsköpunarsjóðir að fara af stað sem geta verið áhugaverðir fyrir lífeyrissjóði.

Þetta kom meðal annars fram á fundi stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða með þingmönnum á þriðjudag fyrir viku. Á fundinum kynntu þingmenn sér meðal annars fjárfestingarkosti sjóðanna, rekstur þeirra og eignir. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtakanna, að nýlega hafi nokkrir aðilar kynnt sjóði sem hyggjast fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum fyrir lífeyrissjóðunum.

„Ég tek ekki afstöðu til þeirra en núna stendur lífeyrissjóðum til boða að fjárfesta í innlendum nýsköpunarsjóðum,“ segir Gunnar. Þessir sjóðir eru t.d. Frumtak II, Investa, SA Framtak og síðan eru Landsbréf að undirbúa sjóð og höfðu áður stofnað annan sjóð.

Eignir sexfaldast frá 1998

Eignir lífeyrissjóða hafa aukist verulega á undanförnum árum og sexfaldast frá árinu 1998. Skýringarnar á þessari aukningu eru nokkrar. „Í fyrsta lagi voru lífeyrissjóðalögin samþykkt 1997 og tóku gildi 1998. Eitt af því sem þau tryggðu var að allir greiða í lífeyrissjóð en þá var tekið upp eftirlit með því. Í öðru lagi er það aldurssamsetning þjóðarinnar. Við erum ennþá tiltölulega ung þjóð og erum því að byggja upp eignir til að greiða eftirlaun þegar við hættum að vinna. Í þriðja lagi var iðgjald í sjóðina hækkað árið 2006 úr 10% í 12%. Í fjórða lagi bættist við heimild til viðbótarlífeyrissparnaðar árið 1999. Í fimmta lagi þá er það nú þannig að þrátt fyrir efnahagshrun þá hefur ávöxtun lífeyrissjóðanna verið góð eða að meðaltali rúmlega 4% á ári,“ segir Gunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið allt hér að ofan undir liðnum tölublöð .