Póst- og fjarskiptastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að Landssímanum hafi verið óheimilt að synja Og Vodafone um aðgang að heimtaugum í grunnneti. Vodafone fagnar niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar en fyrirtækið hefur síðastliðna þrjá mánuði leitast við að fá afgreiðslu á fjölda beiðna um aðgang að heimtaugum vegna viðskiptavina Margmiðlunar. Og Vodafone og Margmiðlun sameinuðust í október 2004.

Í tilkynningu frá Og Vodafone kemur fram að Póst- og fjarskiptastofnun telur að heildsala Landssímans geti ekki stöðvað einstakar beiðnir um flutning á ADSL-tengingum eða annarri þjónustu sem fyrirtækinu er skylt að veita, með þeim rökum einum að vafi leiki á hvort viðkomandi viðskiptavinur hafi óskað eftir þjónustunni. ?Hlutverk heildsölu, eins og hér stendur á, er að afgreiða beiðnir sem berast frá öðrum fjarskiptafyrirtækjum. Ef beiðnin uppfyllir þau skilyrði sem talin eru upp í viðmiðunartilboði Símans, viðauka 1a, 3. kafla,. 1.-9. tl., þá ber að veita aðgang," segir í ákvörðun stofnunarinnar.

Mál þetta er dæmigert fyrir þá yfirburðastöðu sem Landssíminn hefur á fjarskiptamarkaði í krafti eignarhalds á grunnnetinu. Þannig hefur fyrirtækið með ólögmætum hætti komið í veg fyrir í um nokkurra mánaða skeið að Og Vodafone geti sinnt viðskiptavinum sínum. Og Vodafone telur ljóst að fjarskiptalöggjöf veiti keppinautum Landssímans ekki þá vernd gagnvart yfirburðastöðu Landssímans eins og haldið hefur verið fram í opinberri umræðu um einkavæðingu fyrirtækisins.