Peningabréf ISK hjá Landsvaka áttu engin ríkistryggð bréf við slit sjóðsins, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá Landsvaka, sem send var út í dag.

Í yfirlýsingu sjóðastýringafélagsins Landsvaka, dótturfélags Landsbanka Íslands, nú NBI, sem send er út vegna fjölmiðlaumfjöllunar undanfarið um Peningabréf og félagið sjálft eru eignir sjóðsins Peningabréfa ISK sundurliðaðar eftir útgefendum. Þar kemur fram að 60% eignanna voru í skuldabréfum, innlánum og vörnum hjá fjármálafyrirtækjum og 40% í skuldabréfum annarra fyrirtækja.

Engar eignir í Glitni

Í meðfylgjandi töflu má sjá að tæpur þriðjungur eigna Peningabréfa ISK hjá Landsvaka var í Kaupþingi, 14% í Landsbanka, 13% í Straumi en ekkert í Glitni. Þá má sjá að 13% voru í skuldabréfum Baugs, en 1% hjá Existu og Marel.

Engar eignir í ríkistryggðum bréfum

Í yfirlýsingunni segir að fjárfestingarákvarðanir Peningabréfa ISK hafi tekið mið af framboði og ávöxtunarmöguleikum á markaði á hverjum tíma. Engar eignir voru í ríkisbréfum en í yfirlýsingunni segir að takmarkað framboð hafi verið af skammtíma ríkisskuldabréfum miðað við ávöxtunarviðmið Peningabréfa ISK.

Samkvæmt fjárfestingastefnu sjóðsins áttu 0-100% eignanna að vera í ríkistryggðum bréfum, 0-80% í skuldabréfum fjármálafyrirtækja og 0-50% í skuldabréfum annarra fyrirtækja. Í yfirlýsingunni kemur fram að fjárfestingar hafi að fullu verið í samræmi við reglur sjóðsins og útboðsgögn.

Lækkun sjóðsins að 2/3 vegna bankanna

Fram kemur að lækkun á gengi Peningabréfa ISK hafi að 2/3 hlutum verið vegna verðlækkunar á skuldabréfum íslensku viðskiptabankanna. Verðlækkunin sé bein afleiðing af neyðarlögunum frá 6. október, þar sem innlán hafi verði gerð rétthærri en skuldabréf.